Tvö af hverjum þremur sætum skipuð farþegum

Markmið forráðamanna Play var að ná 72 prósent sætanýtingu að jafnaði í fyrra en félagið komst næst þessu hlutfalli í október þegar 68 prósent sætanna voru bókuð. Næstu þrjá mánuði á eftir var hlutfallið lægra.

Í nýliðnum febrúar batnaði sætanýtingin hins vegar umtalsvert þegar hún fór upp í 67 prósent. Skýringin á því liggur meðal annars í ákvörðun stjórnenda Play að draga úr ferðum nú í janúar og febrúar vegna stöðu heimsfaraldursins í lok síðasta árs.

Þessi niðurskurður endurspeglast í farþegahópnum því þrátt fyrir nærri jafn háa sætanýtingu þá flugu um fimm þúsund færri farþegar með Play í síðasta mánuði í samanburði við október í fyrra.

Í tilkynningu frá Play segir að gert sé ráð fyrir því að nýtingin næstu mánuði aukist.

„Þessar væntingar grundvallast á tveimur meginatriðum. Annars vegar því að í febrúar hélt bókunum áfram að fjölga, eins og raunin hafði verið í janúar, og það þrátt fyrir váleg tíðindi í heimsmálunum. Hins vegar er fyrirséð að tengiflug yfir Atlantshaf, sem hefst í vor, muni styrkja stöðuna enn frekar,“ segir í tilkynningu.

Samkvæmt gögnum sem Play gaf út í tengslum við hlutafjárútboð félagsins í júní í fyrra þá er gert ráð fyrir að sætanýtingin hjá félaginu í ár verði að jafnaði 85 prósent.