Afkomuspáin ekki lengur í gildi

Mynd: Vancouver Airport

Stjórnendur Icelandair gáfu það út í febrúar síðastliðnum að þeir gerðu ráð fyrir að flugfélagið yrði rekið með hagnaði í ár. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði hins vegar á fjárfestafundi í morgun að þessi spá væri ekki lengur í gildi. Jafnvel þó gert væri ráð fyrir jákvæðri afkomu á næstu tveimur ársfjórðungum og sérstaklega þeim þriðja.

Icelandair tapaði rúmlega sex milljörðum króna fyrstu þrjá mánuði þessa árs sem er töluvert meira tap en á þessu tímabili á árunum fyrir heimsfaraldur. Skýringin á þessu liggur meðal annars á hækkun olíuverðs en eins og Túristi hefur áður fjallað um þá byggði afkomuspáin á mun lægra olíuverði en heimsmarkaðsverðið er í dag.