Bæta við ferðum til Billund

Farþegar á flugvellinum í Billund á Jótlandi geta nú flogið beint til Íslands út haustið. Mynd: Billund Lufthavn

Icelandair hóf að nýju áætlunarflug til Billund í Danmörku á föstudaginn og félagið mun halda úti ferðum þangað yfir páskana. Sumarvertíðin félagsins á þessum næststærsta flugvelli Danmerkur hefst svo þann 6. maí og á munu þotur félagsins fljúga þangað þrisvar í viku.

Upphaflega var ætlunin að halda úti þessum ferðum til jóska flugvallarins úti fram í lok september en nú hefur Icelandair lengt vertíðina fram í enda októbermánaðar.

Skýringin á því er mikil eftirspurn eftir ferðum Icelandair frá Billund til Íslands og eins flugi félagsins til Norður-Ameríku samkvæmt því sem haft er eftir sölustjóra Icelandair í Danmörku í danska flugritinu Checkin.

Icelandair er eitt um flug frá Billund til Íslands því stjórnendur Play kusu heldur að veðja á flug til Þrándheims og Stavanger í Noregi og Gautaborgar í Svíþjóð.