Farþegar í flugi til og frá Kanada verða áfram að vera með grímur

Þeir sem nýta sér ferðirnar héðan til Toronto verða áfram að vera með grímur í fluginu. Mynd: Conor Samuel / Unsplash

Yfirvöld í Kanada ætla ekki að fella niður grímuskylduna í almenningssamgögnum þar í landi eða í flugvélum jafnvel þó sú regla sé á undanhaldi hjá grönnum þeirra í Bandaríkjunum. Reuters fréttastofan hefur það eftir talsmanni samgönguyfirvalda í Kanada að grímur séu mikilvægur þáttur í að halda niðri smitum á Covid-19 og grímuskylda muni því ríkja áfram í flugi til og frá Kanada.

Stuðningum við grímunotkun er almennt mikill í Kanada samkvæmt frétt Reuters og þar í landi er ætlast til að þeir sem þangað ferðast noti grímur á almannafæri í tvær vikur eftir komu. Sambærileg krafa er ekki upp í Bandaríkjunum eða í Evrópu.

Og vera má að harðari sóttvarnaraðgerðir í Kanada dragi úr áhuga heimamanna á ferðalögum út í heim. Það sem af er ári hefur kanadískum ferðamönnum hér á landi fækkað umtalsvert meira en almennt hefur gerst. Fyrstu þrjá mánuði ársins fækkaði þeim kanadískum um 84 prósent á meðan erlendum farþegum á Keflavíkurflugvelli fækkaði miklu minna eða um 47 prósent.

Icelandair gerir ráð fyrir að halda úti ferðum til þriggja kanadískra borga í sumar og eins mun Air Canada fljúga hingað frá bæði Montreal og Toronto.