Farþegar verða áfram að vera með grímur

Farþegi Delta flugfélagsins en áfram verða farþegar þess félags og allra þeirra sem fljúga til og frá bandarískum flugvöllum að vera með grímur. Mynd: Delta Air Lines

Núgildandi reglur um grímunotkun í flugi til og frá Bandaríkjunum áttu að renna út þann 16. apríl en í gær gáfu bandarísk sóttvarnaryfirvöld út að gildistíminn yrði framlengdur til 3. maí. Þar með er ljóst að þeir sem fara í fyrsta áætlunarflug Play til Bandaríkjanna þurfa að vera með grímur í fluginu því félagið fer jómfrúarferð sína til Baltimore-Washington flugvallar á miðvikudaginn.

Forstjórar tíu stærstu flugfélaga Bandaríkjanna lýstu því yfir í síðasta mánuði að þeir teldu ekki ástæðu til að framlengja grímuskylduna og vísuðu meðal annars til þess að sú regla er á undanhaldi í flugi innan Evrópu. Fulltrúar stéttarfélaga flugfreyja og -þjóna hafa einnig bent á að grímuskyldan hefði leitt til þess að dólgslæti meðal farþega væru miklu tíðari en áður. Af þeim 5.981 farþega sem kærður var fyrir ólæti um borð í farþegaflugvél vestanhafs í fyrra þá voru nærri þrír af hverjum fjórum að mótmæla með einhverjum hætti grímuskyldunni.

Sóttvarnaryfirvöld vestanahafs telja engu að síður nauðsynlegt að framlengja reglur um almenna grímunotkun í öllum almenningssamgöngum í Bandaríkjunum fram yfir næstu mánaðamót í það minnsta í ljósi mikillar útbreiðslu BA.2 útgáfunnar af ómíkrón afbrigðinu.