Icelandair breytir líka reglum um grímunotkun

Þota Icelandair á flugvellinum í Denver í Bandaríkjunum Mynd: Denver flugvöllur

Í síðustu viku framlengdu bandarísk sóttvarnaryfirvöld reglur um grímuskyldu í almenningssamgöngum og áætlunarflugi til 3. maí. Engu að síður hafa stjórnendur bandarískra flugfélaga nýtt daginn í dag í að tilkynna farþegum að þeir geti nú sjálfir ákveðið hvort þeir noti grímur eða ekki. Ástæðan er dómur sem féll í Flórídafylki í gær en þar er núverandi grímuskylda farþega sögð stríða gegn bandarískum lögum.

Forsvarfólk Play var snöggt til í morgun og gaf út að farþegar í ferðum félagsins til Bandaríkjanna yrðu ekki neyddir til að nota grímur og nú hefur Icelandair breytt sínum reglum líka. Á heimasíðu þess síðarnefnda segir að nú séu það aðeins þeir sem nýta sér ferðir félagsins til Kanada, Þýskalands og Frakklands sem verði að vera með grímur.

Það eru ekki bara flugfélögin vestanhafs sem boða breytingar í dag á reglum um grímunotkun. Það hafa forsvarsmenn flugvallanna líka, til að mynda í Raleigh-Durham eins og sjá má á tístinu hér fyrir neðan. En í næsta mánuði fer Icelandair fyrstu ferð sín til þessa flugvallar í Norður-Karólínu.