Ísland kemst á kortið í Liverpool

Í Liverpool er flugvöllur borgarinnar kenndur við John Lennon. Í Reykjavík er svo friðarsúla Yoko Ono. Mynd: IJ Portwine / Unsplash

Þegar mest lét var boðið upp á áætlunarflug héðan til þrettán breskra flugvalla en John Lennon flugvöllur í Liverpool var ekki einn þeirra. Frá og með haustinu munu þotur Play aftur á móti fljúga þangað klukkan sjö alla mánudags- og föstudagsmorgna.

Þar með komast Íslendingar beint til Bítlaborgarinnar og íbúar hennar geta flogið hingað úr heimabyggð í stað þess að fara til nágrannaborgarinnar Manchester þaðan sem þrjú flugfélög fljúga reglulega til Keflavíkurflugvallar.

Það er reyndar stutt á milli flugvalla borganna tveggja eða rétt um 40 mínútna akstur en sá sem er norðan við Manchester er töluvert stærri. Þaðan er líka hægt að fljúga beint til Norður-Ameríku en ekkert þess háttar er í boði í Liverpool.

Það má því gera ráð fyrir að Play reyni að ná til sín farþegum á leið yfir Atlantshafið sem velja þá frekar að millilenda hér í stað þess að stoppa annars staðar á leiðinni.