Íslandsflugið frá Riga komið í gang á ný

Nú munu þotur lettneska flugfélagsins airBaltic aftur verða fastagestir á Keflavíkurflugvelli. Mynd: airBaltic

Um kaffileytið í dag lenti þota á vegum airBaltic á Keflavíkurflugvelli en ferðir félagsins hingað frá Riga, höfuðborg Lettlands, hafa legið niðri að undanförnu. Félagið gerir ráð fyrir þremur brottförum í viku hér eftir. 

„Við höfum verið mjög ánægð með þessa flugleið en hún er með þeim lengri hjá okkur því flugtíminn er um fjórir klukkutímar. Ég þekki sjálfur fólk sem hefur ferðast um þetta fallega land og við finnum fyrir mikilli eftirspurn eftir ferðum þangað. Mest er þetta farþegar á leið í frí en líka fólk í vinnuferð. Við erum því ánægð með að vera komin af stað á ný enda flogið lengi til Íslands,” segir Martin Gauss, forstjóri airBaltic í samtali við Túrista.

Spurður hvort Íslendingar nýti sér flugið til Lettlands þá segir Gauss að það séu að mestu farþegar sem byrja ferðalagið í Riga sem séu um borðí þotunum. Það sé þó líka hópur sem fljúgi frá Íslandi til Riga en haldi svo ferðalaginu áfram þaðan. Í fyrra hafi flestir í þeim hópi flogið með airBaltic til Vilnius og Tallinn en þar á eftir kom Kænugarður, Helsinki, Moskva og Sankti Pétursborg. 

Gauss undirstrikar að þessar upplýsingar eigi við um síðasta ár sem hafi ekki verið hefðbundið vegna farsóttarinnar.

Ljóst er að á næstunni munu farþegar airBaltic ekki fljúga til Rússlands eða Úkraínu. Forstjóri flugfélagsins leggur þó áherslu á að um leið og óhætt er að hefja flug til Úkraínu á ný þá verði það gert. En um sjö prósent af umsvifum airBaltic tengdust áætlunarflugi til úkraínskra borga á meðan vægi Rússlandsflugsins var um helmingi minni.

Fyrir áhugasama lesendur um flugvélar þá má geta þess að lettneska flugfélagið er það eina sem flýgur til og frá Keflavíkurflugvelli sem nýtir nýjar Airbus A220 þotur í ferðir sínar. Flugfloti félagsins samanstendur í dag eingöngu af þotum af þessari gerð.