Íslendingar á leiðinni út og því útlit fyrir skort á bílastæðum

Það er útlit fyrir að lausu stæðin við Leifsstöð verði af skornum skammti næstu daga. Mynd: Isavia

Búist er við mikilli umferð um Keflavíkurflugvöll kringum páska og eru farþegar hvattir til að bóka bílastæði fyrir brottför.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia en á árunum fyrir heimsfaraldur gerðist það reglulega að bílastæðin fylltust þegar Íslendingar streymdu út í páskaferðir.

Í tilkynningu Isavia er bent á að bókunarkerfi fyrir bílastæði á vefsíðu Keflavíkurflugvallar tryggi farþegum pláss og þá á lægra verði en þegar greitt er við hlið.

„Því fyrr sem bókað er, því lægra verð fæst. Verð á sólarhring í langtímastæðum fyrir þá sem greiða við hlið án þess að bóka stæði fyrirfram er 1.750 krónur,“ segir í tilkynningunni.

Isavia bendir einnig á að hægt sé að nýta sér sætaferðir til flugvallarins, til að mynda með rútum og strætó.