Leigja frá sér þotur

Hið nýja Premium Economy farrými Finnair. Þar eru sætin Mynd: Finnair

Á meðan langflest evrópsk flugfélög eru að auka umsvif sín dag frá degi þá er starfsemi Finnair ennþá mun takmarkaðri en hún var fyrir heimsfaraldur. Félagið gerir þannig ráð fyrir að framboðið í sumar verði aðeins um sjötíu prósent af því sem var á sama tíma árið 2019. Af þeim sökum hefur félagið leigt þrjár Airbus A350 breiðþotur til Lufthansa og fjórar Airbus A321 til British Airways.

Lokuð rússnesk lofthelgi gerir finnska félaginu nefnilega erfitt fyrir enda gengur reksturinn að miklu leiti út á áætlunarflug til Austurlanda fjær. Þotur Finnair þurfa því að fljúga lengri leið en áður frá Helsinki til Kína, Japan og Kóreu. Þar með eykst kostnaðurinn og til viðbótar eru þoturnar ekki eins þéttsetnar og áður sem skrifast meðal annars á áframhaldandi sóttvarnaraðgerðum, til að mynda í Kína.

Til að vega upp á móti þessu hefur Finnair bætt við bandarísku borgunum Dallas og Seattle við leiðakerfi sitt. Einnig hefur félagið sótt inn á sænska markaðinn með beinu flugi frá Stokkhólmi til Bandaríkjanna. Og nú er verið að skipta út sætunum í breiðþotunum sem notaðar eru í Ameríkuflugið, bæði á fyrsta farrými og svokölluðu Premium Economy farrými.

Þess háttar sæti eru þó ekki í þotum Finnair sem fljúga til Keflavíkurflugvallar fimm sinnum í viku frá Helsinki.

Samkvæmt nýju uppgjöri Finnair fyrir fyrsta fjórðung þess ára þá jókst tapið umtalsvert og nam 213 milljónum evra sem eru um það bil þrjátíu milljarðar króna. Finnska forsætisráðuneytið er skráð fyrir 56 prósent hlut í Finnair og hefur finnska ríkið lengi farið með meirihlutann í flugfélaginu. Hið íslenska FL-Group átti á sínum tíma nærri þrettán prósent hlut í Finnair og þá sat Sigurður Helgason, fyrrum forstjóri Icelandair, í stjórn félagsins.