Misdýrt að bæta við farangri

kef taska 860
Það getur verið álíka dýrt að borga undir ferðatösku og farþega í flugi til og frá landinu. Mynd: Isavia

Þar til fyrir fimm árum síðan fengu farþegar Icelandair, á leið til Norður-Ameríku, að innrita tvær ferðatöskur án þess að borga aukalega fyrir. Farangursheimildin var svo samræmd því sem tíðkaðist í Evrópufluginu í ársbyrjun 2017 og þar með máttu þeir sem bókuðu ódýrustu miðana hjá Icelandair innrita eina tösku. Skipti þá engu til hvaða lands var flogið.

Þessi regla lifði ekki lengi því frá og með haustinu 2017 hafa þeir sem bóka ódýrustu miðana hjá Icelandair ekki rétt á að innrita farangur nema borga aukalega fyrir.

Segja má að félagið hafi á þessum tíma verið að fylgja fordæmi keppinautanna sem margir hverjir höfðu þá þegar kynnt til sögunnar fargjaldaflokk þar sem enginn farangur var innifalinn.

Og í dag er það í raun undanteknin ef flugfélögin sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli taka ekki aukalega fyrir það að fljúga ferðatöskum milli landa. Alla vega þeim sem þarf að setja í farangursgeymsluna.

Verðlagningin á þessari þjónustu er mjög ólík eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Hjá lággjaldaflugfélögunum er verðið ekki alltaf fast heldur breytilegt á milli borga og jafnvel daga. Gjaldið getur líka verið dýrara en farmiðinn sjálfur eins og stundum er raunin hjá Wizz Air.

Hjá hefðbundnu félögunum er farangursheimildin oft það dýr að það borgar sig í raun ekki að kaupa ódýrstu farmiðana og bæta svo við tösku eftir ár. Það er einfaldlega hagstæðara að kaupa miða í næstódýrasta flokki þar sem farangur er innifalinn. Hið breska British Airways býður til að mynda ekki þeim sem eru með ódýrustu miðana að kaupa farangur aukalega.

Í töflunni hér fyrir neðan er aðeins horft til farangurs sem þarf að innrita en flest lágfargjaldafélög rukka líka aukalega fyrir töskur sem komast ekki undir sætin. Hvort Icelandair og fleiri eldri flugfélög fylgi því fordæmi á eftir að koma í ljós.