Nýr stjórnarformaður Isavia

Fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja auk tveggja frá stjórnarandstöðunni mynda nýja stjórn.

Frá Hornafjarðarflugvelli en allir flugvellir landsins eru reknir af Isavia. Mynd: Isavia

Aðalfundur Isavia fór fram seinnipartinn í dag og þar lét Orri Hauksson af embætti stjórnarformanns en hann var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn hins opinbera hlutafélags. Eftirmaður Orra kemur úr sama flokki en sá er Kristján Þór Júlíusson, fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerði einnig breytingar á sínum fulltrúa í stjórn Isavia. Valdimar Halldórsson fór úr aðalstjórn og inn kom Hólmfríður Árnadóttir sem leiddi lista flokksins í Suðurkjördæmi í kosningunum sl. haust.

Þriðja breytingin sem gerð var á stjórn Isavia á aðalfundinum í dag er sú að Jón Steindór Valdimarsson tók þar sæti í stað Píratans Evu Pandoru Baldursdóttur. Jón Valdimar er fyrrum þingmaður Viðreisnar.

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir frá Miðflokknum og Framsóknarmaðurinn Matthías Imsland voru endurkjörin.