Olíuverðið þarf að lækka um tugi prósenta ef afkomuspáin á að ganga eftir

Hækkandi fargjöld og samdráttur í áætlun gætu vegið upp á móti kostnaðarhækkuninni.

Nýr samningur Icelandair um fyrirframkaup á eldsneyti gerir ráð fyrir mun hærra verð en félaginu bauðst í febrúar. Mynd: Denver Airport

Fyrir heimsfaraldur var Icelandair ávallt með samning um fast verð á helmingi af eldsneytisþörfinni til næstu tólf mánaða. Auk þess samdi félagið um verð á tíund af notkuninni til næstu 13 til 18 mánaða. Svona eldsneytisvarnir eru algengar í fluggeiranum enda veita þær ákveðinn fyrirsjáanleika í rekstrinum því kaup á þotueldsneyti er næststærsti kostnaðarliðurinn hjá flugfélögunum á eftir launum starfsfólks.

Þessi viðskipti eru þó áhættusöm eins og Icelandair og fleiri flugfélög fengu að reyna þegar landamæri lokuðust í mars 2020 vegna Covid-19. Um haustið bókfærði Icelandair til að mynda fimm milljarða króna tap af sínum eldsneytissamningi.

Í kjölfarið var félagið ekki með neinar varnir en tók svo upp þráðinn í þessum efnum í fyrra en með takmarkaðri hætti en áður.

Þannig var Icelandair aðeins með fast verð á þrjátíu prósent af áætlaðri eldsneytisþörf á fyrsta fjórðungi þessa árs. Gera má ráð fyrir að á því tímabili hafi Icelandair að jafnaði greitt um tíu prósent hærra verð en afkomuspá stjórnenda flugfélagsins byggir á. Spá þeirra um jákvæða afkomu í ár gerir nefnilega ráð fyrir að félagið greiði að jafnaði 800 dollara fyrir tonn af þotueldsneyti í ár.

Bæta í vörnina

Á þeim fjórðungi sem hófst um síðustu mánaðamót er félagið búið að festa verð á fjórðungi af eldsneytisþörfinni. En miðað við forsendur afkomuspárinnar þá þyrfti markaðsverðið í dag að vera um þriðjungi lægra en það er í raun og veru.

Til að vega upp á móti þessum aukna kostnaði þá hefur Icelandair hækkaði svokallað eldsneytisálag og þar með reynt að koma hækkuninni út í verðlagið.

Lægra hlutfall í sumar

Félagið getur þó ekki hækkað afturvirkt þá farmiða sem búið var að selja fyrir komandi sumarvertíð. Nema þann hluta sem seldur var í gegnum ferðaskrifstofur og ekki var búið að gera upp.

Eldsneytisvarnir Icelandir fyrir háannatímabilið í ár hafa verið mjög takmarkaðar líkt og Túristi greindi frá í byrjun mars. Þá hafði félagið aðeins fest verð á innan við tíund af eldsneytisþörfinni en samkvæmt tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gær þá hefur hlutfallið verið hækkað í 18 prósent.

Fyrir þann hluta mun Icelandair griða að jafnaði 934 dollar fyrir tonnið. Til samanburðar hafði Morgunblaðið það eftir fjármálastjóra Icelandair um miðjan febrúar að þá biðist félaginu að festa tonnið í júlí í 800 dollurum. Heimsmarkaðsverð á þotueldsneyti var í gær var 1.264 dollarar á tonnið.

Gætu dregið úr framboði

Miðað við þessar nýju varnir sem Icelandair kynnti í gær þá þarf markaðsverð á eldsneyti að lækka um nærri fjörutíu af hundraði á næstu þremur mánuðum eigi forsendur afkomuspárinnar að ganga eftir. Ef það gerist ekki verða fargjöldin að hækka töluvert líkt og stefnt er að með hærra eldsneytisálagi.

Ef hækkun farmiða dregur svo úr eftirspurn þá gætu stjórnendur Icelandair gripið til þess að draga úr framboði fyrir komandi vetur.

Þess háttar niðurskurð kynntu þáverandi stjórnendur Icelandair vorið 2008 en þá var olíuverðið mjög hátt. Á þeim tíma áttur þeir hins vegar ekki kost á því að skipta út gömlu þotunum fyrir sparneyttari Max þotur líkt og hægt er að gera í dag. Í nýju flugvélunum eru hins vegar færri sæti en í þeim gömlu sem myndi leiða til þess að framboðið myndi dragast saman ef gömlu þoturnar verða minna nýttar en ráðgert var.