Samkeppni íslensku félaganna hafin á bandaríska markaðnum

Play fær næði í nokkrar vikur á Baltimore-Washington flugvelli áður en Icelandair mætir þangað.

washington hvitahusið David Everett Strickler
Þeir sem eru á leið til Washington borgar hafa nú eru ferðum Icelandair og Play að velja. Mynd: David Everett / Unsplash

Áætlunarflug Play hófst í dag þegar þota félagsins hélt til Baltimore-Washington flugvallar. Félagið mun framvegis bjóða upp á daglegar ferðir til þessa flugvallar sem er sunnan við Baltimore borg en norðan við höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C.

Í næsta mánuði hefst áætlunarflug Play til Boston og í byrjun júní fer félagið sína fyrstu ferð til New York.

Þar með verður Play líka valkostur fyrir þá sem eru á leið frá austurströnd Bandaríkjanna yfir til Evrópu og eru til í að millilenda á Keflavíkurflugvelli á leiðinni. Icelandair gerir út á sama hóp en það félag hefur verið eitt um áætlunarferðirnar héðan til Bandaríkjanna síðan Delta og United luku síðustu sumarvertíð sinni hér á landi sl. haust. Bæði félög taka upp þráðinn í Íslandsflugi sínu nú í sumarbyrjun.

Sem fyrr segir þá byrjar Bandaríkjaflug Play með ferðum til Baltimore-Washington flugvallar en þangað var síðast flogið frá Keflavíkurflugvelli þann 27. mars 2019. Þá fór Wow Air sína síðustu ferð til borgarinnar sem hafði verið fastur liður í áætlun félagsins allt frá því að það félag hóf áætlunarflug til Bandaríkjanna sumarið 2015.

Þremur árum síðar skoraði Icelandair þáverandi keppinaut sinn á hólm í Baltimore. Félagið hafði þó ekki árangur sem erfiði líkt og Túristi rakti á sínum tíma. Icelandair snéri því ekki aftur til Baltimore sumarið eftir en ætlar hins vegar að spreyta sig þar á ný núna í sumar og þá í samkeppni við Play.

Til viðbótar við ferðirnar til Baltimore-Washington flugvallar þá flýgur Icelandair líka til Dulles flugvallar sem er 15 kílómetrum nær Hvíta húsinu en fyrrnefndi flugvöllurinn.