Samruni ferðaskrifstofanna fær grænt ljós

Úrval-Útsýnar og Heimsferðir verða nú báðar hluti af Ferðaskrifstofu Íslands. Skjámynd af vef Úrval-Útsýnar

Samkeppniseftirlitið hefur gefið heimild fyrir yfirtöku Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef eftirlitsins.

Þar segir kaupin séu heimiluð á grundvelli sáttar sem samrunaaðilar hafa gert við eftirlitið. Í því felst meðal annars að sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að gefa öðrum ferðaskrifstofum færi á að nýta sætaframboð í flugi á vegum sameinaðs fyrirtækis.

„Með því er keppinautum, og þar með neytendum, gefinn kostur á að njóta mögulegrar hagkvæmni sem af samrunanum getur hlotist að mati samrunaaðila,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins. Er það tekið sérstaklega fram að þessi réttur keppinauta eigi ekki við um ferðaskrifstofustarfsemi Icelandair.

Kynnt var um kaup Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum í árslok 2020 og hafa viðskiptin því verið til skoðunar í nærri sextán mánuði. Þó ekki sleitulaust því síðastliðið haust var umsókn um samruna dregin tilbaka eftir að frummat Samkeppniseftirlitsins, um að sameining fyrirtækjanna væri skaðleg, lág fyrir.

Samruninn var tilkynntur á ný með breyttum sniði og hefur hann nú fengið grænt ljós hjá Samkeppniseftirlitinu. Þar með verður til stærsta ferðaskrifstofa landsins þegar kemur að sölu pakkaferða til útlanda en það eru ferðir þar sem flug og gisting eru seld saman.

Það eru þó vísbendingar um að mjög stór hluti Íslendinga kaupi flug til sólarlanda og gistingu í sitthvoru lagi. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs flugu til að mynda um 26 þúsund farþegar frá Íslandi til Tenerife, Alicante og Las Palmas. Um fjórar af hverjum fimm flugu með annað hvort Icelandair eða Play. Rétt um fimmtungur nýtti sér leiguflug á vegum ferðaskrifstofanna tveggja sem nú sameinast.

Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, mun eiga 70 prósent hlut í sameinuðu fyrirtæki á meðan Arion banki, eigandi Heimsferða, heldur eftir þrjátíu prósent hlut. Bankinn eignaðist Heimsferðir í uppgjöri sínu við Andra Má Ingólfsson sumarið 2019.

Þessi grein er öllum opin en stór hluti þeirra frétta sem Túristi birtir er aðeins fyrir áskrifendur. Ef þú vilt bætast í þann hóp þá kaupir þú áskriftina hér.