Samfélagsmiðlar

Segir ferðaskrifstofuna með ótakmarkaða rekstrartryggingu frá Icelandair

Helmingur þeirra Íslendinga sem flaug til Tenerife í janúar og febrúar sat um borð hjá icelandair. Rétt um fimmtungur nýtti sér leiguflug ferðaskrifstofa.

Andri Már Ingólfsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Adventura, gagnrýnir boðaðan samruna Ferðaskrifstofu Íslands og Heimaferða en einnig tengsl Vita og Icelandair.

Þegar Icelandair stofnaði Vita árið 2008 voru aðeins tvö ár liðin frá því að flugfélagið seldi frá sér Ferðaskrifstofu Íslands sem Úrval-Útsýn tilheyrir. Nú boðuðu stjórnendur Icelandair sem sagt samkeppni við þá sömu og höfðu keypt fyrirtækið af þeim tveimur árum fyrr.

Allar götur síðan hefur Vita svo verið rekin í nánum tengslum við Icelandair og stjórn ferðaskrifstofunnar hefur til að mynda verið skipuð forstjóra Icelandair og tveimur framkvæmdastjórum.

Í lok síðasta árs var starfsemi Vita færð inn í á aðalskrifstofur Icelandair við Reykjavíkurflugflugvöll og til stendur að hefja sölu á sólarlandaferðum á heimasíðu Icelandair líkt og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair og stjórnarformaður Vita, fór yfir í viðtali við Túrista í desember í fyrra.

Andri Már Ingólfsson, stofnandi Heimsferða og eigandi ferðaskrifstofunnar Aventura, gagnrýnir tengsl Vita og Icelandair í aðsendri grein á Vísi í gær. Þar fullyrðir Andri að Vita sé í raun með ótakmarkaða rekstrartryggingu frá flugfélaginu og óljóst sé hver greiðir fyrir sætin á hvern áfangstað.

Í því samhengi má rifja upp að flug Icelandair til Alicante og Tenerife var lengi á vegum Vita en flugfélagið hefur nú tekið yfir þessar ferðir og fjölgað þeim umtalsvert frá því sem var.

Mótfallinn samruna keppinauta

Tilefni skrifa Andra í Vísi í gær voru þó ekki bara þessi tengsl Vita og Icelandair heldur yfirvofandi samruni Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða. Sá samruni var tilkynntur í árslok 2020 en ennþá liggur ekki fyrir úrskurður Samkeppniseftirlitsins. Andri er mótfallinn samrunanum og segir að sameinað fyrirtæki yrði með um 65 prósent markaðshlutdeild og myndi tryggja sér yfirburðastöðu á markaðnum.

Þar horfir Andri til sölu á pakkaferðum en ljóst má vera að stór hluti íslenskra neytenda skipuleggur eigin ferðir til útlanda og kaupir þá flugið sér og gistinguna annars staðar.

Til marks um þessar breyttu aðstæður á markaðnum þá flugu rúmlega 22 þúsund farþegar milli Íslands og Tenerife í janúar og febrúar í ár samkvæmt nýjum tölum frá spænskum flugmálayfirvöldum. Af þessu fjölda flugu 52 prósent farþeganna með Icelandair og Vita og 27 prósent með Play. Leiguflugfélagið Neos var með afganginn eða um fimmtung af heildinni. Í þotum Neos sátu viðskiptavinir Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða, ferðaskrifstofanna tveggja sem unnið er að því að sameina.

Af heimasíðu Aventura, ferðaskrifstofu Andra Más, að dæma þá eru áætlunarferðir Play helst nýttar til að koma viðskiptavinunum út í heim. Hluti af umsvifum Play snúast þá í kringum starfsemi Andra Más.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …