Skera niður sumaráætlunina vegna manneklu

Bandaríska flugfélagið Jetblue kemur ekki öllum þotunum sínum í loftið vegna skorts á starfsfólki. Mynd: Jetblue

Á sama tíma og eftirspurn eftir ferðalögum eykst hröðum skrefum þá eiga flugfélög víða í erfiðleikum með að fá fólk til starfa á nýjan leik. Eitt þessara félaga er bandaríska lágfargjaldafélagið Jetblue sem þurfti að fella niður meira en þrjú hundruð ferðir yfir helgina. Stjórnendur félagsins sjá því ekkert annað í stöðunni en að draga enn frekar úr umsvifunum.

Nú þegar hefur Jetblue fellt niður um tíundu hverju brottför í maí og framundan er álíka niðurskurður á sumaráætluninni samkvæmt frétt CNBC.

Bresk félög í vanda

Jetblue er ekki eina flugfélagið vestanhafs sem hefur þurft að fella niður ferðir vegna skorts á starfsmönnum og þá sérstaklega flugmönnunum. Þannig hefur Alaska Airlines, fimmta stærsta flugfélagið í Bandaríkjunum, dregið úr áformum sínum fyrir júní.

Í Evrópu hafa flugfélög einnig fellt niður ferðir vegna manneklu. Í byrjun þessar mánaðar var meira en eitt þúsund brottförum bresku flugfélaganna British Airways og Easyjet aflýst vegna þess fjölda starfsmanna sem komust ekki til vinnu vegna smita af kórónuveirunni.

Langar raðir

Það er ekki bara flugfélögin sjálf sem eiga í vanda með að ráða til sín fólk því skortur á almennum flugvallarstarfsmönnum hefur líka gert farþegum erfitt fyrir síðustu daga. Þannig mynduðust óvenju langar biðraðir myndast við vopnahliðin á flugvöllunum í Stokkhólmi og Dublin um helgina.