Stilla starfsmönnum og eigendum upp við vegg

Mynd: SAS

Stjórnendur SAS kynntu áform um umbyltingu á rekstri félagsins í febrúar síðastliðnum. Tilgangurinn er að ná niður kostnaði og spara þannig um 7,5 milljarða sænskra króna á ári. Sú upphæð jafngildir um 100 milljörðum íslenskra króna.

Forsendan fyrir því að þetta takist er að áhafnir félagsins, sérstaklega flugmenn, sætti sig við kjaraskerðingar og að ráðningasamningar þeirra verði færðir í dótturfélög SAS. Stéttarfélög flugmanna gáfu það út samstundis að þau væru ekki til viðræðu um þessar breytingar. Síðan þá hefur ekkert mjakast í samkomulagsátt.

Í dag sendi SAS svo frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að ekkert gangi í viðræðum við starfsmenn og lánadrottna. Hluti af endurskipulagningu flugfélagsins gengur nefnilega út á að sænska og danska ríkið breyti skuldum í hlutafé. Ríkissjóðir þessara tveggja landa eru ekki bara langstærstu hluthafar SAS í dag heldur líka helstu kröfuhafarnir.

Stjórnendur SAS segjast vonast til að viðræður muni skila árangri fljótlega svo komist verði hjá því að ferlið endi í réttarkerfinu. Er þar vísað til möguleikans á að félagið fari fram á greiðslustöðvun eða jafnvel gjaldþrot samkvæmt því sem segir í frétt Dagens Næringsliv.

SAS heldur úti reglulega áætlunarflugi til Íslands frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn og í sumar bætast við ferðir frá Stokkhólmi.