Stjórarnir söðla um

Mynd: SAS

Á sama tíma og kjaraviðræður við flugmenn SAS eru í hnút þá skila stjórnendur flugfélagsins inn uppsagnarbréfum. Fyrir tveimur vikum sagði Magnus Örnberg, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, upp stöðu sinni og nú í morgun var tilkynnt að Karl Sandlund, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs, hefði ráðið sig til annarra starfa.

Karl þessi gegndi tímabundið stöðu forstjóra SAS í fyrra eftir að Rickard Gustafsson steig upp úr forstjórastóli síðastliðið vor eftir að hafa leitt flugfélagið í áratug. Í kjölfar var hollendingurinn Anko van Der Werff ráðinn og er hann fyrsti forstjóri SAS sem ekki er skandinavískur.

SAS er ekki eina norræna flugfélagið sem hefur þurft að sjá á eftir yfirmönnum síðustu misseri því þrír af framkvæmdastjórum Icelandair hættu hjá félaginu í fyrra. Í kjölfarið var fjölgað í framkvæmdastjórn félagsins og þar sitja nú níu manns.