Telja að ferðaplön sumarsins taki breytingum vegna verðbólgu

reykjavik Tim Wright
Svo gæti farið að bandarískir ferðamenn hér á landi í sumar leyfi sér minna en áður vegna hækkandi verðlags. Mynd: Tim Wright / Unsplash

Bandaríkjamenn eru sú þjóð sem er fjölmennust í hópi ferðamanna hér á landi og sérstaklega yfir sumarmánuðina. En í Bandaríkjunum líkt og víða annars staðar hefur verðlag verið á uppleið og það hefur áhrif á sumarleyfi fólks.

Það sýna í það minnsta niðurstöður nýrrar könnunar fjármálaritsins Bankrate því samkvæmt þeim gera sjö af hverjum tíu Bandaríkjamönnum ráð fyrir að gera einhverjar breytingar á ferðaplönum sumarsins.

Algengast er að fólk segist ætla í færri ferðalög eða ferðast styttra frá heimilinu en áður var lagt upp. Ódýrari afþreying og gisting eru líka ofarlega á blaði hjá þeim sem gera ráð fyrir að hækkandi verðlag hafi áhrif á ferðalög næstu mánaða.

Þessir tveir síðarnefndu þættir eru sérstaklega áhugaverðir út frá íslenskri ferðaþjónustu því meðaleyðsla bandarískra ferðamanna hér á landi er almennt há.