Þarf ekki að selja fyrr en eftir þrjú ár

Mynd: Icelandair

Yfirtaka Ferðaskrifstofu Íslands á Heimsferðum var samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í dag en þar hefur samruni þessara tveggja stóru ferðaskrifstofa verið til skoðunar síðan í árslok 2020. Meðal þeirra fyrirvara sem Samkeppniseftirlitið setti fyrir samþykki sínu er sá að Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, selji hlut sinn í Icelandair líkt og Túrist greindi frá í morgun.

Pálmi er stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair með 1,66 prósent hlut en í úrskurði eftirlitsins kemur ekki fram hversu langan frest hann fær til að selja bréfin í flugfélaginu. Spurður um tímarammann þá segir Pálmi að samkomulagið við Samkeppniseftirlitið geri ráð fyrir að hann megi eiga bréfin í Icelandair í allt að þrjú ár til viðbótar.

„Ég er því ekki að fara að selja hlutinn minn núna enda tel ég að Icelandair sé undirverðlagt á markaðnum. Flugfélagið er því góður fjárfestingakostur að mínu mati. Stjórnendur þess hafa komið því í gegnum tvær mjög alvarlegar krísur á síðustu árum en núna stendur félagið sterkt og er í stöðu til að nýta þau tækifæri sem eru á markaðnum,” segir Pálmi.

Viðtal við Pálma um næstu skref Ferðaskrifstofu Íslands birtist hér á síðum Túrista á morgun.