Þurfa ekki að mæta eins snemma í flugið

Það er þéttbókað í flug Niceair til Tenerife í sumar en færri komast með í hverri ferð þangað en til Kaupmannahafnar og London.

Flugvöllurinn á Akureyri
Frá og með sumarbyrjun verður hægt að fljúga beint frá Akureyri til Kaupmannahafnar, London og Tenerife. Mynd: Isavia

Þegar umferðin eykst um Keflavíkurflugvöll þá eru farþegar reglulega beðnir að mæta í Leifsstöð þremur klukkutímum fyrir brottför. Það ætti hins vegar að duga þeim sem nýta sér ferðir Niceair frá Akureyrflugvelli í sumar að mæta 90 mínútum fyrir flugtak. Og sá tími gæti styst enn frekar þegar afköstin í vopnaleitinni og innritun aukast að sögn Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Niceair.

Morgunferð félagsins frá Akureyrarflugvelli er á dagskrá korter í átta morgnana og farþegar þurfa því á fætur árla dags líkt og þeir sem fljúga með Play og Icelandair í morgunsárið.

Aftur á móti sleppa Norðlendingar við að fara suður daginn fyrir flug og samkvæmt útreikningum Niceair þá spara það farþegunum ekki bara tíma heldur líka pening. Kostnaður við akstur til Keflavíkurflugvallar og heim aftur getur þannig numið ríflega fimmtíu þúsund krónum og svo bætast við bílastæðagjöld við Leifsstöð og jafnvel gisting á hóteli við flugvöllinn. Þeir sem reikna dæmið alveg til enda taka svo aukið vinnutap með í reikninginn því ferðalagið verður lengra þegar leggja þarf í hann út á flugvöll daginn fyrir brottför.

Færri sæti til Tenerife

Spurður um bókunarstöðuna hjá hinu nýja félagi þá segir Þorvaldur hana góða. Pantanir komi inn jafnt og þétt og sumarið sé farið að líta vel út, sérstaklega þegar kemur að áætlunarfluginu til Kaupmannahafnar og Tenerife. Nú þegar eru flestar brottfarir til spænsku eyjunnar vel bókaðar í sumar og kominn biðlisti í aðrar. En í fluginu til Tenerife verður tuttugu sætum haldið auðum og því bara pláss fyrir 130 farþega.

Ástæðan fyrir þessu er sú að drægni þotunnar, sem Niceair hefur til umráða, er ekki nægjanleg til að fljúga fullri þotu alla leiðina frá höfuðstað Norðurlands og til flugvallarins við suðurströnd Tenerife.

Vetrarferðir frá Bretlandi

Sala á áætlunarferðum Niceair til London gengur hægar og segir Þorvaldur að það hafi verið viðbúið. Vertíðin í Bretlandi hefjist í raun ekki fyrr en í október og er félagið að vinna í því að koma á samstarfi við breskar ferðaskrifstofur fyrir veturinn.

Þar með myndi Bretum á ný gefast tækifæri á að fljúga beint til Akureyrar líkt og var á boðstólum í ársbyrjun 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Superbreak seldi Norðurljósaferðir til Akureyrar. Þær ferðir gengur reyndar út á að fljúga farþegunum norður frá hinum ýmsu breskum flugvöllum og ferðirnar frá London voru fáar.

Þessi grein er öllum opin en stór hluti þeirra frétta sem Túristi birtir er aðeins fyrir áskrifendur. Ef þú vilt bætast í þann hóp þá kaupir þú áskriftina hér.