Verður að selja hlutinn í Icelandair

Pálmi Haraldsson er í dag stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair. Mynd: Denver Airport

Samkeppniseftirlitið hefur veitt samþykki sitt fyrir samruna Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða en þó með skilyrðum. Eitt þeirra er að Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, losi hlut sinn í Icelandair Group innan ótilgreinds tíma og er jafnframt óheimilt að hafa afskipti af flugfélaginu þangað til.

Ekki kemur fram í úrskurði Samkeppniseftirlitsins hversu langan tíma Pálmi hefur til að selja hlutinn í Icelandair.

Pálmi verður eigandi rúmlega sjötíu prósent hlutar í sameinaðri ferðaskrifstofu en hann er jafnframt stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair. Félag hans Sólvöllur ehf. er skráð fyrir 1,66 prósent hlut en markaðsvirði hans er í dag rúmlega 1,2 milljarðar króna.

Ferðaskrifstofa Íslands keypti um árabil mikinn fjölda af flugsætum af Icelandair og var þá einn stærsti viðskiptavinur flugfélagsins eins og fram kom í viðtali Túrista við Þórunni Reynisdóttur, forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands, í fyrra. Þar ræddi hún líka hversu sérstakt það væri að eiga í viðskiptum við flugfélagið á sama tíma og Icelandair er sjálft mjög stór keppinautur í sölu á pakkaferðum í gegnum ferðaskrifstofuna Vita.

Þessi grein er öllum opin en stór hluti þeirra frétta sem Túristi birtir er aðeins fyrir áskrifendur. Ef þú vilt bætast í þann hóp þá kaupir þú áskriftina hér.