548 milljónir til uppbyggingar við ferðamannastaði

Það liggur nú fyrir hvaða verkefni fá styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í ár. En sjóðurinn er nýttur til að standa straum af kostnaði við framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.

Alls bárust 154 umsóknir um styrki upp á 2,7 milljarða króna en samtals var 548 milljónum úthlutað eða um fimmtungi af þeirri upphæð sem óskað var eftir. Hlutfallslega var mestu úthlutað til uppbyggingar á Suðurlandi eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

Þessi verkefni fenguð mestan stuðning samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu:

 • Fossabrekkur 55.200.000 kr.
  Styrkur vegna hönnunar og framkvæmdar í samræmi við deiluskipulag. Verkefnið eykur öryggi ferðamanna og aðgengi að náttúrunni. 
 • Öryggismál og aðgengi við Norðurfjarðarhöfn 55.000.000 kr.
  Styrkur til í að hámarka upplifun gesta, tryggja öryggi þeirra og um leið að efla núverandi samfélag og þá þjónustu sem það vill bjóða upp á. Lögð verður áhersla á að vinna með vistvænar lausnir í framkvæmdum og í öllum innviðum. Að flétta saman sjávarplássið við Norðurfjörð, þjónustu við ferðamenn í sátt og samlyndi við íbúa og náttúru.
 • Bætt öryggi með nýjum útsýnisstíg vegna Eyjafjallagossins 35.837.307 kr.
  Katla jarðvangur fær styrk til að klára að hanna og deiliskipuleggja og síðan framkvæma stíg ásamt útsýnishól þar sem umfjöllun Eyjafallagossins verður gerð góð skil. Verkefnið er sérstaklega brýnt vegna öryggissjónarmiða ferðamanna. 
 • Útsýnis – og áningastaðir á austurbakka Stuðlagils 31.250.044 og Stuðlagil – bætt öryggi við aðkomu 22.590.000 kr.
  Tvö verkefni fá styrk í tengslum við Stuðlagil að þessu sinni. Annað þeirra er styrkur til að bæta öryggi við aðkomu göngufólks og umferð bíla að gilinu (yfirborðsvinnu). Verkefnið stuðlar að náttúruvernd og bætir úr öryggi ferðamanna á mjög fjölförnum ferðamannastað. Hitt verkefnið snýr að útsýnis- og áningarstað á austurbakka gilsins. Framkvæmdirnar fela í sér uppbyggingu á útsýnisstöðum og áningarstöðum í og við Stuðlagil í landi Klaustursels. Uppbygging felst í gerð verkhönnunar og verklegum framkvæmdum vegna útsýnis- og áningarstaða. Einnig að koma upp varanlegum varúðar- og upplýsingaskiltum í og við Stuðlagil austanvert. Á skiltum verða gestir upplýstir um hættur á svæðinu t.d. grjóthrun og fallhættu, ásamt fræðslu um sögu og menningu svæðisins.