Afskrifa 113 þotur

Meðal leigutaka hjá AerCap er rússneska flugfélagið S7 sem stefndi á að fljúga til Íslands í sumar frá Moskvu. Mynd: S7

Í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu kyrrsettu rússnesk stjórnvöld hátt í fimm hundruð farþegaþotur sem þarlend flugfélög voru með á leigu. Eigendur þotanna hafa með litlum árangri reynt að fá þær tilbaka og nú hefur stærsta flugvélaleiga heims, AerCap, afskrifað 113 af þeim 135 þotum sem voru í útleigu í Rússlandi.

Þessi staða setur sterkan svip á uppgjör AerCap því tapið á fyrsta fjórðungi þessa árs nam tveimur milljörðum dollara eða um 260 milljörðum króna. Ef ekki hefði komið til afskriftanna þá hefði rekstur AerCap skilað hagnaði upp á um 70 milljarða króna samkvæmt frétt The Irish Times.

Flugvélaleigan hefur tilkynnt tjón sitt til tryggingafélaga en þar sem hluti þeirra eru í rússnesk þá segja stjórnendur AerCap að ekki sé ljóst hversu miklar bæturnar verða eða hvenær þeir verða greiddar út.