Biðin eftir Kínverjum verður lengri

Hópur kínverskra ferðamanna hér á landi er mun fámennari í dag en var fyrir heimsfaraldur. Mynd: Ale Llopez / Unsplash

Ennþá eru kínversk landamæri að mestu lokuð vegna Covid-19 faraldursins og heimamenn komast ekki út í heim. Og það verður einhver bið eftir því að kínverskir ferðamenn streymi til Evrópu á ný samkvæmt mati sérfræðinga við China Outbound Tourism Research Institute.

Þeir reikna nefnilega ekki með að Kínverjar fari á flakk fyrr en eftir áramót en upptakturinn verður hraður. Árið 2024 má nefnilega gera ráð fyrir að fjöldi kínverskra túrista á heimsvísu verði pari við það sem var 2019. Þetta mat byggir meðal annars á könnunum sem sýna að stór hluti Kínverja bíður spenntur eftir því að ferðast á ný til annarra landa.

Árin fyrir heimsfaraldur var vægi kínverskra ferðamanna hér á landi hæst í desember eins og sést á töflunni hér fyrir neðan. Ef kínversk landamæri opnast fyrr en China Outbound Tourism Research Institute gerir ráð fyrir þá gætu kínverskir ferðamenn orðið fjölmargir hér á landi um næstu áramót.

Það ber þó að hafa í huga að hluti þeirra Kínverja sem heimsækir Íslands býr ekki í heimalandinu. Til marks um það flugu um 7.500 Kínverjar frá Íslandi í janúar til apríl í ár en þeir voru 38 þúsund á sama tíma árið 2019. Fækkunin nemur áttatíu prósentum sem gefur ákveðna vísbendingu um að stór hluti kínverskra ferðamanna hér á landi er í raun búsettur annars staðar en í Kína.