Boða ferðaþjónustuna í generalprufu

Það gæti styst í að Íslendingar geti heimsótt Japan á ný. Flugferðin verður þó lengri en áður þar sem lofthelgi Rússa er lokuð. Mynd: David Edelstein / Unsplash

Í tengslum við ólympíuleikana í Tokýó síðasta sumar voru japönsk landamæri opnuð tímabundið en þó með mjög varkárum hætti. Eftir leikana var skellt í lás að nýju til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

Nú sér hins vegar fyrir endann á einangruninni því í morgun tilkynntu japönsk stjórnvöld að síðar í þessum mánuði fengju þríbólusettir túristar frá Bandaríkjunum, Ástralíu, Tælandi og Singapúr að heimsækja landið. Fólkið verður þó að ferðast í hópum samkvæmt frétt Reuters en ef allt gengur sem skildi þá opnar Japan fyrir heimsbyggðinni á ný í sumar.

Um leið geta heimamenn sjálfir farið til útlanda sem eru góð tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu. Japanir eru nefnilega fjölmennastir hér á landi frá sumarlokum og yfir veturinn eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Um árabil bauð til að mynda japanska flugfélagið JAL upp á leiguflug til Keflavíkurflugvallar frá bæði Tókýó og Osaka frá lokum ágúst og fram í miðjan september.

Ferðaþjónusta hefur verið ein af meginstoðunum í japönsku efnahagslífi en árið 2019 heimsóttu 32 milljónir útlendinga landið.