Dýrara að dvelja í Bretlandi

london David Dibert
Flugsamgöngur milli Íslands og London eru tíðar allt árið en framboðið er mest yfir veturinn þegar breskir ferðamenn fjölmenna í Íslandsferðir. Mynd: David Dibert / Unsplash

Verðlag í Bretlandi hækkaði um níu prósent í apríl sem er ennþá meiri uppsveifla en í mars þegar neysluverðsvísitalan fór upp um sjö prósent. Þessi hækkun milli mánaða er sú mesta í fjörutíu ár en hana má að mestu rekja til hækkandi orkuverðs samkvæmt frétt The Telegraph.

Íslendingar á leið til Bretlands mega því gera ráð fyrir að dvölin ytra kosti meira nú en áður. Styrking íslensku krónunnar síðustu mánuði vegur þó upp á móti þessum hækkunum að einhverju leyti.

Sterkari króna vinnur hins vegar ekki með íslenskri ferðaþjónustu því nú er orðið dýrara fyrir Breta að sækja Ísland heim. Ört hækkandi verðlag í Bretlandi gæti líka komið niður á eftirspurn heimamanna eftir ferðalögum út í heim líkt og stjórnendur Heathrow flugvallar hafa bent á.

Yfir vetrarmánuðina eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi. Í febrúar og mars í ár keyptu þeir ríflega 150 þúsund gistinætur á íslenskum hótelum eða fjórðung allra þeirra hótelgistinga sem bókaðar voru þessa tvo mánuði.

Næsta vetur stefnir í mikið framboð á áætlunar- og leiguflugi frá Bretlandi til Keflavíkurflugvallar á vegum sjö flugfélaga. Til viðbótar gerir Niceair ráð fyrir áætlunarflugi frá Akureyri til London og Manchester en Bretar fjölmenntu norður þegar þangað var flogið beint frá hinum ýmsu bresku borgum í ársbyrjun 2018 og 2019.