Engin laus sæti til Óslóar næstu vikur

Fyrir Covid-19 faraldurinn var Norwegian það flugfélag sem flaug flestum milli Íslands og Spánar. Félagið hélt líka á tímabili úti áætlunarferðum hingað frá London, Róm, Stokkhólmi og fleiri borgum en núna einskorðast umsvifin á Keflavíkurflugvelli við tvær brottfarir í viku til Óslóar.

Og eftirspurnin eftir sætum í þessar fáu ferðir Norwegian hingað til lands er það mikil að núna eru sjö af næstu tíu brottförum uppseldar. Spurð um þessa stöðu þá segir talskona norska félagsins þessi flugleið sé einfaldlega mjög vinsæl. En auk Norwegian þá fljúga bæði Icelandair og SAS daglega milli Keflavíkurflugvallar og Gardermoen við Ósló.

Það er yfirlýst markmið eigenda Norwegian að félagið verði ekki á ný eins stórt og það var fyrir heimsfaraldur. Engu að síður er ætlunin að fjölga þotunum þar á bæ upp í um eitt hundrað vélar en forstjóri Norwegian segir þó ljóst að leiguverð á nýjum Boeing Max þotum, eins og flugfélagið hefur augastað á, hafi hækkað hratt að undanförnu.