Fá leyfi fyrir flugi til Kanada

toronto b
Það gæti styst í að þrjú flugfélög muni halda úti ferðum milli Íslands og Toronto. Mynd: Ferðamálaráð Toronto

Þegar Play var kynnt til sögunnar í nóvember 2019 var stefnt að áætlunarflugi til fjögurra borga í Norður-Ameríku sumarið eftir, þar á meðal til Toronto í Kanada. Skortur á fjármagni og síðan heimsfaraldur töfðu þær áætlanir.

Nú eru þotur Play farnar að fljúga vestur um haf en ennþá takmarkast ferðirnar við bandaríska flugvelli. Á því kann að verða breyting fljótlega því fyrir helgi veittu kanadísk flugmálayfirvöld Play leyfi fyrir áætlunarflugi til einnar ótilgreindar borgar. Play fær einnig heimild til að halda úti leiguflugi milli Íslands og Kanada samkvæmt tilkynningu á vef samgöngustofnunnar Kanada.

Í ljósi fyrri áforma þá má gera ráð fyrir að Toronto verði fyrsti áfangastaður Play á kanadíska markaðnum. Þar með fengi Icelandair annan keppinaut í flugi milli Íslands og Kanada því yfir sumarmánuðina heldur Air Canada úti Íslandsflugi frá Toronto. Icelandair flýgur aftur á móti allt árið um kring til borgarinnar.