Færri bílaleigubílar og verðið hærra

island vegur ferdinand stohr
MYND: Ferdinand Stohr / UNSPLASH

Sex af hverjum tíu ferðamönnum sem heimsóttu Ísland árið 2019 leigðu sér bíl til að ferðast um landið Það má segja að bílar séu þarfasti þjónn ferðamanna hér á landi en núna eru verðskrár bílaleiganna hærri en þær hafa verið síðustu ár. Þessi þróun einskorðast ekki við Ísland því framleiðsla á nýjum ökutækjum gengur hægt og þar með vantar bíla víða um lönd.

Um þetta háa verðlag og skort á bílaleigubílum hefur verið fjallað hér á Túrista en niðurstöður nýrrar úttektar Ferðamálastofu sýna hins vegar að litlu færri ferðamenn um hvern bílaleigubíl í dag en sumarið 2019.

Þá náði fjöldi ferðamanna hámarki í ágúst þegar hingað komu 252 þúsund ferðamenn. Þá voru um 18 þúsund bílar í skammtímaleigu og því um 14 ferðamenn um hvern bíl. Spá Ferðamálastofu gerir ráð fyrir þriðjungi færri túristum núna eða 189 þúsund manns í ágúst nk. og að bílaflotinn telji 12 þúsund ökutæki. Það verða þá 16 ferðamenn um hvert þeirra yfir háannatímann í sumar.

Sem fyrr segir byggir mat Ferðamálastofu á því að hingað komi talsvert færri ferðamenn í ágúst en á sama tíma sumarið 2019. Framboð á áætlunarflugi í þeim mánuði verður þó ögn meira en þá var samkvæmt talningu Túrista. Hingað gætu því komið álíka margir ferðamenn og fyrir þremur árum og ef það gerist þá verða talsvert fleiri um hvern bílaleigubíl en áður hefur verið.

Hvort þessi skortur á bílaleigubílum eigi eftir að valda bakslagi í bókunum á flugi til Íslands á eftir að koma í ljós.