Fargjöldin til Noregs ólík eftir borgum

Sumarstemning í Bakklandet í Þrándheimi. Mynd:. CH - VisitNorway.com

Nú í sumar verður flogið reglulega héðan til fjögurra norskra flugvalla og af fargjöldunum að dæma á eru flest laus sæti í ferðum Play til Stafangurs og Þrándheims. Í júní og júlí kosta flugmiðar til þessara tveggja borga á bilinu 23 til 31 þúsund krónur, báðar leiðir, samkvæmt könnun Túrista.

Ef ferðinni er heitið til Bergen, þessa tvo mánuði, þá kosta ódýrustu miðarnir 48 þúsund krónur en Icelandair er eitt um ferðirnar til þessarar næst fjölmennustu borgar Noregs.

Samkeppnin í flugi héðan til Óslóar er mun meiri því þotur Icelandair og SAS fljúga þessa leið daglega og Norwegian býður upp á þrjár ferðir í viku. Líkt og til Bergen þá kosta ódýrustu miðarnir með íslenska félaginu til Óslóar tæplega fimmtíu þúsund krónur í júní og júlí.

SAS selur sín sæti ennþá dýrara því í dag kosta farmiði, báðar leiðir, að lágmarki 67 þúsund krónur milli Keflavíkurflugvallar og Gardermoen. Hjá Norwegian er aftur á móti hægt að finna miða á um 35 þúsund krónur á fjölda mörgum dagsetningum en sem fyrr segir þá flýgur það félag mun sjaldnar en keppinautarnir.