Fella niður 4 þúsund flugferðir í sumar

Þotur SAS verða mögulega ennþá þéttsetnari í sumar því nú verður fjölda ferða aflýst. MYND: SAS

Þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir flugferðum þá hafa stjórnendur evrópskra og bandarískra flugfélaga þurft að draga úr áformum sínum fyrir sumarið vegna manneklu. Nú bætast stjórnendur stærsta flugfélags Norðurlanda í þann hóp.

SAS mun nefnilega á næstu dögum aflýsa fjögur þúsund af þeim 75 þúsund flugferðum sem voru á sumaráætlun félagsins. Niðurskurðurinn jafngildir fimm prósent af framboðinu. Talskona flugfélagsins staðfestir við sænska viðskiptablaðið Dagens Industri að skortur á starfsfólki og seinkun á afhendingu nýrra flugvéla sé megin skýringin á þessari breytingu.

Forsvarsmenn stéttarfélaga flugmanna gefa hins vegar lítið fyrir þær skýringingar. Benda þeir á að 450 flugmenn hafi ekki verið endurráðnir eftir heimsfaraldur og auk þess sé kjaradeila flugfélagsins og áhafna í hnút.

Sumaráætlun SAS gerir ráð fyrir daglegum ferðum til Íslands frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn auk ferða frá Stokkhólmi yfir hásumarið. Samkvæmt athugun Túrista er þessi dagskrá ennþá óbreytt.