Flugfélag stjórnarmanns Icelandair ræður áhafnir

Tveir af fimm stjórnarmönnum í Icelandair Group hafa síðustu misseri unnið að stofnun nýs flugfélags í Norður-Ameríku sem hlotið hefur heitið Connect Airlines. Eigandi þess er John Thomas sem kom inn í stjórn Icelandair í byrjun árs 2020 líkt Nina Jonsson en hún kemur að uppbyggingu Connect Airlines sem ráðgjafi.

Upphaflega átti áætlunarflug Connect Airlines frá Billy Bishop flugvelli í Toronto í Kanada að hefjast síðastliðið haust en það tókst ekki. Nú er horft til þess að jómfrúarferðin verði farin á fyrri hluta þessa árs en miðasala er hins vegar ekki ennþá hafin.

Connect Airlines er þó farið að ráða til sín áhafnir eins og sjá má á nýjustu færslu félagsins á Instagram hér fyrir neðan. Og framkvæmdastjórn flugfélagsins er full mönnuð en þar sitja sex karlar með áratuga reynslu úr fluggeiranum.

Líkt og Túristi fjallaði um fyrr á árinu þá er Thomas meðal fjárfesta í félagi sem Icelandair hefur undirritað viljayfirlýsingu við um að breyta gömlum Dash-8 vélum félagsins í vetnisknúnar flugvélar.