Gera ráð fyrir ennþá hærri fargjöldum

Framboð á sætum á vegum Lufthansa samsteypunnar í ár verður 75 prósent af því sem var árið 2019. Mynd: Lufthansa Group

Núna seljast fleiri flugmiðar á degi hverjum hjá Lufthansa Group en á sama tíma árið 2019. Farmiðaverðið á lengri flugleiðum, sérstaklega milli Norður-Ameríku og Evrópu, er að sama skapi orðið hærra en það var fyrir þremur árum síðan. Og stjórnendur þýsku samsteypunnar gera ráð fyrir að fargjöldin hækki áfram næstu mánuði. Þetta kom fram í máli þeirra á afkomufundi fyrirtækisins í morgun.

Þrátt fyrir batamerkin þá tapaði Lufthansa Group 584 milljónum evra fyrstu þrjá mánuði ársins en sú upphæð jafngildir 81 milljarði króna. Tapið var rétt um 6.400 krónur á hvern farþega en til samanburðar þá tapaði Icelandair ríflega tvöfalt meira á hverjum farþega á fyrsta ársfjórðungi eða um 14.800 krónum.

Hátt olíuverð er eitt af þeim atriðum sem dregur niður afkomu flugfélaga um þessar mundir. Lufthansa samsteypan hefur tryggt sér fast verð á 63 prósentum af olíunotkun sinni í ár á lægra verði en nú ríkir. Á næsta ári er félagið með samninga um fast verð á 29 prósent af notkuninni.

Innan Lufthansa samsteypunnar flugfélög eins og Austrian, Eurowings og Edelweiss sem öll fljúga hingað til lands auk hins þýska Lufthansa. Umsvif félaganna á Keflavíkurflugvelli í ár verð aðeins meiri en þau voru árið 2019 og til að mynd stefnir Eurowings á að fljúga hingað í fyrsta sinn yfir vetrarmánuðina.