Gera stutt hlé á Íslandsfluginu frá Gatwick

Starfsemi Easyjet gengur ekki snurðulaust fyrir sig þessa dagana.

easyjet 2017
Þotur Easyjet munu ekki fljúga eins margar ferðir hingað til lands næstu daga og gert var ráð fyrir. MYND: EASYJET

Stjórnendur breska flugfélagsins Easyjet gáfu það út í dag að meira en tvö hundruð flugferðum frá Gatwick flugvelli í London yrði aflýst næstu daga. Skrifast þessi ákvörðun á seinkanir í afgreiðslu í flugstöðinni og aðrar takmarkanir samkvæmt frétt Reuters.

Að jafnaði verður tuttugu og fjórum flugferðum á dag frestað frá og með deginum í dag og fram til 6. júní. Samkvæmt athugun Túrista þá verður Íslandsflug Easyjet frá Gatwick fyrir áhrifum af þessu því félagið felldi niður ferð dagsins til Keflavíkurflugvallar og tekið úr sölu allar brottfarir hingað til lands fram til 11. júní.

Ferðir félagsins hingað frá öðrum flugvöllum eru hins vegar óbreyttar.

Easyjet hefur verið í vandræðum síðustu vikur við að halda úti eðlilegri starfsemi. Á fimmtudaginn þurfti að aflýsa meira en tvö hundruð flugferðum vegna bilunar í tölvukerfi og svo hefur félagið þurft að fjarlægja sæti út þotum sínum vegna skorts á flugfreyjum.