Hætta við ferðir til Flórída

Icelandair verður eitt um flugið milli Íslands og Orlandó í vetur.

orlando skilti 860
Mynd: Ferðamálaráð Flórída

Ekkert verður af áætlunarflugi Play til Orlandó í Flórída næsta vetur en flugfélagið hóf sölu á farmiðum þangað febrúar sl. Þá fullyrti forstjóri Play að auðvelt væri að bjóða mun lægra verð en Icelandair á þessari leið.

Verðkönnun Túrista á föstudaginn sl. sýndi aftur á móti að fargjöld Play voru mun hærri en keppinautarins. Þess háttar verðlagning er oft vísbending um að viðkomandi flugleið verði felld niður en í svari Play sagði þó að áformin um flug til Flórída væru óbreytt.

Í gær, fjórum dögum eftir frétt Túrista, fengu farþegar sem áttu bókað far með Play til Orlandó aftur á móti tilkynningu um að ekkert yrði af ferðunum til Flórída næsta vetur. Þessi breyting var líka útskýrð í uppgjöri félagsins sem birt var seinnipartinn í gær. Þar segir að gerðar hafi verið breytingar á flugflotanum og langdrægu þotunni sem fljúga átti til Flórída verið skiptu út fyrir aðra minni.

Spurð nánari útskýringar á þessu þá segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að félaginu hafi boðist önnur þota á góðum kjörum og ákveðið hefði verið að stökkva á það.

„Ástandið á flugvélamarkaði eftir að stríðið hófst gerði það að verkum að hægt er að semja um leigu til langs tíma á hagstæðum kjörum. Leigan er þá lægri til langs tíma og greiðslubyrðin minni yfir háveturinn. Við hörmum þau áhrif sem þessi breyting hefur á þá farþega sem hafa bókað með okkur til Orlando. Þetta er hins vegar jákvætt fyrir rekstur félagsins enda ljóst að eldsneytisverð verður í hærra lagi næstu mánuði,“ skrifar Nadine í svari til Túrista.