Hafa komið um helmingi hækkunarinnar út í verðlagið

Yfir veturinn er rekstur flugfélaga í okkar heimshluta vanalega í mínus og hið norska Norwegian er þar engin undantekning. Flugfélagið birti í morgun uppgjör fyrir fyrsta fjórðung ársins og niðurstaðan er tap upp á einn milljarð norskra króna.

Upphæðin jafngildir rúmlega fjórtán milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar tapaði Icelandair 6,4 milljörðum eða um 14.800 krónum á hvern farþega. Hjá Norwegian var tapið mun lægra eða 6.400 kr. á farþega sem er sama niðurstaða og hjá Lufthansa á þessum fyrsta fjórðungi ársins.

Hátt olíuverð setur mark sitt á uppgjör Norwegian en félagið er ekki með neina samninga um fast verð á eldsneyti. Á uppgjörsfundi í morgun sagði Geir Karlsen, forstjóra flugfélagsins, að það hefði tekist að koma um helmingi af kostnaðarhækkuninni út í verðlagið nú þegar. Hann sagði þó bagalegt að félagið hafi ekki getað varið sig fyrir sveiflum í eldsneytisverði í fyrra en þá var reksturinn í greiðsluskjóli og ekki hægt að gera samninga um fyrirframkaup á olíu.

Norwegian flýgur hingað til lands frá Ósló en fyrir heimsfaraldur var félagið mun stórtækara í Íslandsflugi. Meðal annars frá Spáni.