Hafna tilboði upp á 471 milljarð króna

Sjöunda stærsta flugfélagið í Bandaríkjunum er lágfargjaldafélagið Spirit og hefur stjórn þess legið yfir tveimur kauptilboðum síðustu fjórar vikur. Það fyrra kom í febrúar og gengur út á að Spirit sameinist Frontier. Bæði þessu félög eru flokkuð sem últra lágfargjaldafélög og við samrunann yrði til fimmta umsvifamesta flugfélag Bandaríkjanna.

Seinna tilboðið barst í byrjun apríl og þar lýsir stjórn flugfélagsins Jetblue yfir áhuga sínum á að kaupa Spirit fyrir 3,6 milljarða bandaríkjadollara eða 471 milljarð króna. Jetblue er í dag sjötta stærsta flugfélagið á bandaríska markaðnum og er flokkað sem lágfargjaldafélag en þó mildari útgáfa en Spirit.

Það verður þó ólíklega eitthvað úr þessum kaupum því í gær gaf stjórn Spirit það út að viðræðum við Frontier yrði haldið áfram og því ekki farið lengra með tilboð Jetblue.

Stefnt er að því að kynna bandarískum samkeppnisyfirvöldum samruna Frontier og Spirit á seinni helmingi þess árs en sérfræðingar vestanhafs eru ekki á einu máli um hvort sameininginn fái samþykki eða ekki.

Þess má geta að bæði þessi flugfélög eru með sterka tengingu við Indigo Partners, fjárfestingafélagið sem íhugaði kaup á Wow Air. Indigo Partners eru stærstu hluthafar Frontier en áttu áður ráðandi hlut í Spirit.