Kaupa 50 Max þotur

Norwegian fær einnig kauprétt á þrjátíu flugvélum til viðbótar.

Hinar nýju Max þotur eiga að leysa af hólmi eldri Boeing 737 en þær elstu í þeim flokki eru á bilinu 11 til 15 ára gamlar. Mynd: Norwegian

Leiguverð á nýjum Boeing Max hefur hækkað hratt síðustu mánuði og því fýsilegra að kaupa þotur en leigja. Þetta sagði Geir Karlsen, forstjóri Norwegian, á fjárfestafundi nýverið. Og nú í morgun kynnti norska félagið samkomulag um kaup á fimmtíu flugvélar af gerðinni Boeing 737 Max. Þær verða afhentar á árunum 2025 til 2028.

Um er að ræða endurnýjun á eldra samkomulagi frá árinu 2012 þegar Norwegian keypti eitt hundrað Max þotur af Boeing. Félagið hafði tekið átján þeirra í notkun þegar allar flugvélar af þessari gerð voru kyrrsettar í mars 2019 í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa. Norska félagið stefndi Boeing í hittifyrra vegna galla í þotunum og vildi komast undan kaupsamningnum. Sá samningur hefur nú verið endurnýjaður að hluta til.

Það eru sjötíu þotur í flota Norwegian í dag, langflestar af eldri gerð Boeing 737. Félagið hefur auk þess leigt fimmtán Max8 þotur sem afhentar verða fram að næstu sumarvertíð. Stjórnendur félagsins hafa, líkt og kollegar þeirra hjá Play, lagt áherslu á að borga aðeins fyrir þoturnar í takt við notkun. Hjá Icelandair hefur sú leið ekki verið farin.

Eins og fram kom hér á síðum Túrista fyrir helgi þá kostar umtalsvert minna að reka Norwegian en íslensku flugfélögin tvö. Tap þess norska á hvern farþega var líka mun minna á fyrsta fjórðungi ársins en raunin var hjá Icelandair og Play.