Mesti batinn á íslenska markaðnum

Frá Hofsósi. Sumarið 2019 flugu um 680 þúsund útlendingar frá Keflavíkurflugvelli og vísbendingar eru um að bókanir á ferðum hingað í sumar gangi vel. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Ríflega þriðji hver einstaklingur sem á bókað farmiða til Íslands í júlí og ágúst er á leiðinni frá Bandaríkjunum. Bókanir þaðan eru í dag um átta prósent fleiri en á sama tíma árið 2019.

Heilt yfir er Ísland sá áfangastaður í Evrópu þar sem batinn er mestur þegar horft er til pantanna þessa tvo sumarmánuði í samanburði við bókunarstöðuna á sama tíma árið 2019. Samdrátturinn nemur aðeins sex prósentum en til samanburðar eru bókanir á flugferðum til Suður-Evrópu 22 prósentum færri í dag en þær voru fyrir þremur árum siðan.

Á heimsvísu er Ísland í tíunda sæti yfir þau lönd sem hafa náð mestum bata.

Þegar horft er til eftirspurnar eftir Íslandsferðum frá Evrópu þá koma breski og þýski markaður best út. Bókanir frá Bretlandi eru tveimur prósentum færri í dag en á sama tíma árið 2019. Samdrátturinn í Þýskalandi er þrjú prósent.

Þetta sýna tölur sem greiningafyrirtækið ForwardKeys hefur tekið saman fyrir Túrista.

Þess verður þó að geta að upplýsingarnar byggja á bókunum hjá flugfélögum sem eru meðlimir að IATA, alþjóðasamtökum flugfélaga. Lágfargjaldafélög eins og Easyjet, Play og Wizz Air eru ekki þar innanborðs en eru öll stórtæk í flugi til og frá Keflavíkurflugvelli. Þar með gefur þessi samanburður ekki fullkomna sýn á stöðu mála.

Sem fyrr segir eru bókanir á flugi hingað frá Bandaríkjunum í sumar fleiri en þær voru á sama tíma árið 2019. Í því samhengi má benda á að framboð á Íslandsflugi á vegum bandarísku flugfélaganna Delta og United er meira núna en það var sumarvertíðina fyrir þremur árum síðan. Og líkt og Túristi hefur fjallað um þá hefur sala á flugmiðum United til Íslands, frá bæði Chicago og New York, gengið vel.

Icelandair er hins vegar umsvifamest í flugi milli Íslands og Bandaríkjanna en hluti af farþegum félagsins eru tengifarþegar.