Mjólkurkýr íslensku flugfélaganna

Flugstöðin á Tenerife. Mynd: Aena

Fyrstu þrjá mánuði ársins flugu um átján þúsund manns frá Íslandi til Tenerife og þar af um helmingurinn með Icelandair samkvæmt tölum frá spænskum flugmálayfirvöldum. Nærri þrír af hverjum tíu sátu um borð í þotum Play sem jafngildir því að 18 prósent farþega félagsins, á fyrsta ársfjórðungi, var á leið til spænsku eyjunnar. Hjá Icelandair voru Íslendingar á leið til Tenerife um 5 prósent af öllum farþegum í millilandaflugi félagsins frá janúar til mars.

Staðreyndin er nefnilega sú að það eru nær eingöngu Íslendingar á leið í sólarlandaferð sem nýta sér ferðirnar til Tenerife. Í þotum Icelandair og Play sem fljúga til annarra áfangastaða er útlendingarnir miklu fleiri. Og erlendu farþegarnir verða að vera í yfirgnæfandi meirihluta svo rekstur íslensku flugfélaganna standi undir sér. Það er ekki markaður fyrir daglegt flugi frá Keflavíkurflugvelli til Boston, Berlínar og Brussel nema af því að um borð eru erlendir ferðamenn og tengifarþegar á leið yfir Atlantshafið.

Sérstaða flugsins til Tenerife er þó ekki bara einsleitur markhópur heldur líka fargjöldin. Þetta eru nefnilega dýrustu miðarnir sem er í sölu í dag samkvæmt úttekt Túrista. Var þar horft til lægstu fargjalda til áfangastaða vestanhafs og í Evrópu í júní og október.

Fjarlægðin skýrir hátt verðlag að hluta til því það tekur um fimm klukkustundir að fljúga til Tenerife. Eyjan er því sá evrópski áfangastaður í leiðakerfi Icelandair sem er lengst frá Keflavíkurflugvelli. Hátt verð skrifast þó ekki bara á flugtímann því ódýrustu miðarnir með Icelandair til Seattle, í norvesturhluta Bandaríkjanna, eru um fimmtungi ódýrari nú í júní og október. Það tekur þotur Icelandair samt um átta klukkutíma að fljúga til Seattle.

Dæmin sýna líka að Play fær mun meira fyrir hvert sæti í þotunum sem fljúga til Tenerife en þegar flogið er jafnlangt vestur um haf. Sá sem bókar í dag vikuferð með félaginu til spænsku eyjunnar í október greiðir að jafnaði ríflega helmingi meira en sá sem ætlar til Boston eða New York með Play.

Þessi háu fargjöld til Tenerife endurspegla mjög mikla eftirspurn og einnig má gera ráð fyrir að félögin hafi nú þegar selt stóran hluta af sætunum. Lausu sætin til annarra áfangastaða eru því miklu fleiri og fargjöldin því lægri.

Það er því kannski ekki að furða að stjórnendur Icelandair leggi í dag miklu meiri áherslu á sólþyrsta Íslendinga en gert var á síðasta áratug. Þá flaug félagið varla til Suður-Evrópu nema til Madrídar og Mílanó yfir sumarið. Núna hefur félagið bætt verulega við úrvalið. Hvort þessi stefnubreyting verði tekin tilbaka ef tengiflug félagsins kemst á skrið á nýjan leik á eftir að koma í ljós.


Viltu gerast áskrifandi að Túrista? Smelltu þá hér.