Mun fleiri gistinætur en áður en miklu færri en fyrir Covid-19

Það var mikill bati í gistigeiranum í fyrra enda var árið 2020 „fordæmalaust".

Herbergi á Fosshóteli Fáskrúðsfirði. Mynd: Íslandshótel

Heildarfjöldi skráðra gistinátta ferðamanna á Íslandi var um fimm milljónir árið 2021 en þær voru um 3,3 milljónir árið 2020. Þá stóðu Íslendingar sjálfir undir óvenju háu hlutfalli gistinga enda voru sóttvarnaraðgerðir strangar við íslensku landamærin eins víðast hvar annars staðar.

Fyrir kórónuveirufaraldurinn, árið 2019, voru skráðu gistinæturnar 8,3 milljónir og enn fleiri árið áður þegar þotur Wow Air voru ennþá á fleygiferð.

Eins og sjá má á grafi Hagstofunnar þá var aukningin í fyrra umtalsverð í öllum landshlutum.