Neyðast til að stöðva tímabundið sölu á farmiðum

Frá Schiphol í Amsterdam Mynd: Schiphol

Það hafa myndast langar raðir við innritunarborðin á Schiphol flugvelli í Amsterdam síðustu vikur vegna skorts á starfsfólki. Suma daga ná raðirnar langt út á götu og það er ekki útlit fyrir að ástandið fari batnandi. Af þeim sökum hafa stjórnendur hollenska flugfélagsins KLM ákveðið að draga úr framboði á flugmiðum næstu daga.

Fram yfir helgi verður til að mynda eingöngu hægt að bóka dýrustu flugmiðana í brottfarir félagsins frá Amsterdam samkvæmt því sem fréttaveitan Reuters hefur eftir talsmanni KLM.

Þess má geta að Transavia, dótturfélag KLM, flýgur til Íslands frá Amsterdam og eins fljúga þotur Icelandair þangað daglega.