Reikna með fleiri farþegum

Horfurnar á Keflavíkurflugvelli fyrir næstu mánuði hafa batnað samkvæmt farþegaspá sem Isavia sendi frá sér í morgun. Þar segir að gert sé ráð fyrir 5,7 milljónum farþegar í ár en fyrri spá hljóðaði upp á 4,6 milljónir.

Gangi þetta eftir þá verður farþegahópurinn í ár aðeins fimmtungi fámennari en árið 2019. Ef horft er til metársins 2018 þá nemur samdrátturinn um fjörutíu prósentum.

Hafa ber í huga að hver farþegi á Keflavíkurflugvelli er talinn bæði við komu og brottför. Og tengifarþegar eru taldir fjórum sinnum. Einstaklingur sem flýgur hingað frá Berlín og heldur svo beint áfram til Boston er nefnilega talinn tvisvar á leiðinn vestur um haf og jafnoft á heimleiðinni.

Einstaklingarnir sem munu fara um Leifsstöð í sumar verða því vel innan við þrjár milljónir og af þeim fjölda reikna stjórnendur Isavia með að erlendir ferðamenn verði 1,4 til 1,5 milljónir. Fyrri spá gerði ráð fyrir 1,2 milljónum ferðamanna.

„Heimurinn er að opnast eftir heimsfaraldurinn og ferðaþjónustan að vakna eftir erfitt tímabil,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia, í tilkynningu. „Við hjá Isavia erum bjartsýn fyrir sumarið og á framtíðina. Árið 2022 endurheimtum við ferðagleðina. Þetta verður líka eitt mesta framkvæmdaár í sögu Keflavíkurflugvallar. Við erum að stækka og bæta flugstöðina til að geta enn betur tekið á móti ferðafólki til framtíðar,“ bætir Grétar við.