Selur í Play

Einn af fyrstu starfsmönnum Play hefur selt hlut í flugfélaginu.

Daníel Snæbjörnsson er einn af framkvæmdastjórum Play. Mynd: Play og Schiphol Amsterdam

Daníel Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri leiðakerfis- og áætlunarsviðs Play, seldi í gær hlutabréf í flugfélaginu fyrir 22,3 milljónir króna. Í kauphallartilkynnningu kemur fram að sölugengið hafi verið 19,2 krónur á hlut en virði Play hefur lækkað um nærri fjórðung frá því að stríðið í Úkraínu hófst fyrir þremur mánuðum síðan.

Ekki segir í tilkynningu Play til Kauphallarinnar hvort Daníel hafi selt allan sinn hlut í flugfélaginu.

Daníel var yfir leiðakerfi Wow Air á sínum tíma en stuttu eftir gjaldþrot þess félags var hann ráðinn til Icelandair. Þar stoppaði hann í nokkra mánuði því haustið 2019 réði Daníel sig til Play sem þá gekk ennþá undir vinnuheitinu WAB.