Skúli minnist ferðalagsins með Wow Air

Wow Air var farið að nálgast Icelandair að stærð þegar mest lét.

Mynd: Sigurjón Ragnar

Það eru tíu ár í dag frá fyrsta áætlunarflugi Wow Air líkt og Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri flugfélagsins, rifjar upp í pistli á Facebook í tilefni dagsins. Þar sendir hann samstarfsfólki sínu hjá Wow Air hlýjar kveðjur og þakkar þeim fyrir samfylgdina á ógleymanlegu ferðalagi.

Skúli bætir því við að þrátt fyrir ferðalokin þá hafi árangur Wow Air verið merkilegur. Félagið hafi flutt yfir tíu milljón farþega, orðið eitt af stærstu fyrirtækjum landsins á fáum árum og spilað stórt hlutverk í endurreisn íslenska þjóðarbúsins eftir efnahagshrunið.

Og Skúli segir það stundum gleymast að samanlagður hagnaður Wow Air hafi verið meira en milljarður króna á árunum 2012 til 2017. Með Facebook færslunni birtir Skúli mynd þar sem sjá má að rekstrarhagnaður flugfélagsins var samtals 12 milljónir dollara á þessu tímabili. Á meðalgengi tímabilsins jafngildir upphæðin tæpum 1,5 milljarði íslenskra króna.

Fyrsta árið, 2012, var tapið sex milljónir dollara eða 750 milljónir króna á þáverandi gengi. Það ár flutti Wow Air eitt hundrað þúsund farþega sem er nákvæmlega sami fjöldi og Play flaug með í fyrra, á sínu fyrsta ári. Rekstrartap Play var aftur á móti mun meira eða 25 milljónir dollara. Sú upphæð jafngildir 3,1 milljarði króna.

Í lok Facebook færslu dagsins þakkar Skúli öllum þá hvatningu og stuðning hann hefur fengið við uppbyggingu ferðaþjónustu í Hvammsvík sem opnuð verður á næstu vikum.