Stundum ódýrara að fara lengri leiðina til Orlandó

Í haust er hægt að fljúga fyrir minna til Orlando með því að millilenda í New York.

Mynd: Visit Orlando

Play boðaði samkeppni við Icelandair í ferðum til Flórída frá og með haustinu. Það verður hins vegar ekkert af þessum áformum þar sem stjórnendur Play hættu við að leigja langdræga þotu sem nýta átti í þessar nærri 8 klukkutíma löngu ferðir til flugvallarins í Orlandó.

Þar með hafa þeir sem vilja fljúga beint héðan til Flórída aðeins úr einum kosti að velja. Og eins og staðan er í dag kosta ódýrustu ferðirnar með Icelandair til Orlandó í október rétt um 84 þúsund krónur ef dvalið er úti í eina viku. Það verð er þó bundið við að flogið sé út á þriðjudegi. Ef það hentar ekki þá kostar farmiðinn töluvert meira.

Farþegar sem sætta sig við millilendingu á leiðinni til Orlandó komast hins vegar á leiðarenda fyrir nokkru minna fé með bandarísku flugfélögunum Delta og United.

Í það minnsta í október þegar bæði félög halda úti áætlunarflugi frá Keflavíkurflugvelli. Hjá báðum félögum er hægt að fá miða fyrir 60 til 75 þúsund krónur til Orlandó á fjölda dagsetninga í október en ferðalagið tekur þá rúma ellefu klukkutíma með millilendingu í New York. Farþegar Delta og United eru á ábyrgð félaganna ef seinkanir valda því að ferðaplönin riðlast.

Bæði Delta og United gera hlé á ferðum til Íslands í lok október og þá er ekki lengur hægt að ferðast til Flórída með þeim alla leið. Framboð á flugi til Orlando eða annarra áfangastaða á Flórídaskaganum er hins vegar mikið frá borgum eins og New York og Boston þangað sem Icelandair og Play fljúga reglulega. Farþegar verða þá oftar en ekki að kaupa farmiðana í sitthvoru lagi og eru því á eigin vegum ef breytingar verða á ferðatilhögun.

SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á BÍLALEIGUBÍLUM Í ORLANDÓ