Súlur í litum Niceair

Þotan sem fljúga mun Norðlendingum út í heim er nú merkt Niceair bak og fyrir.

Þota Niceair, Súlur, mun fljúga til og frá Akureyri frá og með föstudeginum. Mynd: Isavia

Það er uppselt er í jómfrúarferð Niceair frá Akureyrarflugvelli í lok næstu viku en þá verður stefnan tekin á Kastrup í Kaupmannahöfn. Fyrsta ferð til Stansted í London er á dagskrá á laugardaginn og áætlunarflug félagsins til Tenerife hefst þann 7. júní.

Þotan sem Niceair hefur leigt fyrir starfsemina hefur verið máluð í litum félagsins og gefið heitið Súlur eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Það verður pláss fyrir 150 farþega í ferðunum til Danmerkur og Englands en tuttugu sætum verður haldið auðum þegar flogið er til Tenerife. Ástæðan er sú að drægni þotunnar er ekki nægjanleg til að fljúga fullfermi alla leið frá Akureyri til spænsku eyjunnar.

Smelltu hér til að gerast áskrifandi að Túrista