Telja hlutabréfin vera lítils virði

Þota SAS á flugi yfir Arlanda flugvelli í Stokkhólmi. Mynd: Swedavia

Stjórnendur SAS vinna að því þessa dagana að sannfæra kröfuhafa um að fella niður skuldir og biðja áhafnir um að taka á sig kjaraskerðingar. Þegar þetta tvennt er í höfn er ætlunin að fara í hlutafjárútboð þar sem fjárfestar geta keypt hlutabréf í flugfélagi sem skuldar miklu minna og borgar flugverjum lægri laun.

Hlutafé í SAS verður þó ekki aukið nema hluthafar taki líka á sig skerðingu.

Og samkvæmt nýrri greiningu sérfræðinga norska stórbankans DNB þá verður núverandi hlutafé í SAS lítils virði eftir útboðið. Gengi félagsins ætti því að þeirra mati að vera nífalt lægra en það er í raun og veru. Þar með er markaðsvirði þessa stærsta flugfélags Norðurlanda rétt tæpir tíu milljarðar íslenskra króna samkvæmt mati DNB bankans.

Til samanburðar er virði Icelandair í dag um 63 milljarðar og Play er metið á rúmlega 14 milljarða.